Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Málmey (1)

Úr Wikiheimild

Sú hefir verið trú á bænum Málmey á Skagafirði að engin kona mætti þar lengur vera en nítján ár eða tuttugu af því henni ætti þá að hlekkjast eitthvað á, og helzt trú sú enn til þessa dags.

Þegar séra Hálfdán skólabróðir Sæmundar fróða í Svartaskóla var prestur að Felli í Sléttuhlíð bjó bóndi í Málmey er var eiginkvæntur og er hvorki nafngreindur sjálfur né kona hans. Einhverju sinni bar svo til að kona bóndans hvarf svo að enginn vissi hvað af henni varð, og þókti það með undarlegu móti orðið hafa. Bóndi tók það þá til ráðs að hann fer að hitta séra Hálfdán, tjáir honum vandræði sín og biður hann ásjár að hann mætti vísari verða hvað um konu sína hefði orðið. Séra Hálfdán segir: „Kona þín er niðurkomin hjá þussanum í Hvanndalabjargi og mun ég freista að sýna þér hana ef þér er forvitni á, en lítil unaðsbót get ég þér verði að því.“ Bóndi kvaðst vilja fyrir hvern mun sjá konuna. Lætur þá séra Hálfdán söðla hest sinn, hann var apalgrár að lit, og tekur bónda á bak fyrir aftan sig og reiðir hann þannig út með Hvanndalabjargi þangað til hann klappar á það á einum stað. Laukst bjargið þar upp og kom þussinn út með konu bónda. Var hún þá orðin öll helblá á hörundslit þar sem á sást nema kross einn hvítur á enni hennar; það sagði Hálfdán að væri skírnarkrossinn. Spurði hann þá bónda hvort hann vildi hafa konu sína heim með sér, en bóndi kvað nei við, því honum stóð ógn af hversu tröllsleg hún var orðin. Eftir það fóru þeir séra Hálfdán heim sömu leið.

Að vísu hafa menn nú á dögum ekki sögur af því að konur hafi horfið úr Málmey, en skammt er síðan að maður skal hafa flutt þaðan af því hann [óttaðist] að konu sinni yrði einhver hætta búin ef hún væri þar í tuttugu ár.