Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Túnið á Tindum

Úr Wikiheimild

Á Tindum í Þönglabakkasókn bjó kona nokkur þegar Hálfdan var prestur á Þönglabakka. Ekki þókti kona sú við alla fjöl felld og varð henni ekki gott til hjúa, en í kærleikum var hún við prestinn. Á einu sumri þegar flestir þar um sveit höfðu lokið túnslætti gekk hún til Þönglabakka og bað prest ljá sér húskarla til túnsláttar því enn stæði tún sitt allt óslegið. Átti hún reyndar vinnu að presti því ári fyrr hafði hún hjálpað honum til að bjarga inn töðu hans undan óveðri. Prestur tók vel undir mál hennar og kvaðst eitthvað mundi að gera næstu nótt. Fór hún þá heim, en prestur gekk í smiðju og smíðaði ljá af óbörðu járni. Ekki sauð hann stál í ljáinn. Þegar lokið var ljásmíðinni um kveldið kvaddi hann kölska á sinn fund. Þegar kölski kom spurði hann hvað prestur vildi sér þá. Prestur kvað hann skyldi fyrir kaup eins og skilmálar voru þeirra í milli slá allt tún á Tindum þá nótt og ekkert eftir skilja, „en hér.“ segir prestur við kölska, „hefir þú ljáinn og áttu að skila mér honum óskemmdum að morgni“. Síðan skildu þeir.

Þegar leið að afturbirtingu næsta dags varð sá atburður á Þönglabakka að komið var á glugga yfir rúmi prestsins og mælt:

Á Tindum þykir mér túnið ljótt,
tefur það fyrir einum;
grjót er nóg í Gníputótt,
glymur þar járn við steinum,

Meira varð ekki til tíðinda. Þegar prestur kom út um morguninn var ljár sá er hann hafði smíðað reistur upp að bæjarvegg úti fyrir dyrum; var öll egg hans uppmarin og hann brýndur upp fyrir smiðreim. Samt var allt tún slegið á Tindum; var og Gníputótt slegin, en hverki var það fyrr né síðar, svo er hún grýtt og sett jarðföstum steinum. Heitir hún Gníputótt enn í dag og er í túninu á Tindum (Tindrastöðum?).