Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Slegið tún Hálfdanar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Slegið tún Hálfdanar

Hálfdán prestur lét menn sína sækja jafnlega fast sjó. Það var á einu vori að aflaðist vel og var vertíð haldið langt fram á sumarið. Voru flest tún slegin um Fjörður, en ekki byrjaður túnsláttur á Þönglabakka. Vildu þá húskarlar prests byrja slátt á túni, og þar veður var þurrt hugðu þeir að byrja sláttinn að kveldi og slá alla nótt. Prestur bað þá menn sína ekki æðrast þó seint væri byrjaður slátturinn og kvað þeir skyldu til rekkju og sofa þá nótt. Hann var seinastur allra á fótum það kveld og hleypti sjálfur lokum fyrir bæinn. Og er hann gekk til sængur bannaði hann öllum að fara úr rúmum sínum þá nótt eða hafa umgang um bæinn fyrr en hann hefði sjálfur gengið um að morgni og kippt frá lokum.

Á heimilinu var kerling ein. Hún var forvitin mjög; og er allir menn voru sofnaðir þessa nótt fór hún hljóðlega úr rúmi sínu og gekk til dyra. Ekki tók hún lokur frá bæjarhurðu, en á hurðinni var bora lítil og þar gekk hún að og felldi augað annað að borunni og gægðist út. Sér hún þá hvað um er að vera: Er verið að kappslætti um allt tún sem gat eygt yfir og fekk hún ekki talið hve margir voru þar að verki. Þóktist hún nú góða för farið hafa og satt í nokkru forvitni sína. En hvernig fór: Þegar hún hvarf aftur til baka varð auga hennar eftir í borunni á hurðinni; fór hún til rúms síns. Um morguninn var prestur árla á fótum og kippti lokum frá bæ. En er hann kom inn aftur var hann óhýr í bragði og kvað ekki alla sér trúa verið hafa og hefði verið brugðið út af boði sínu og einhver hnýstst út. Fóru menn þá í klæði sín allir nema kerling. Var þá allt tún slegið á Þönglabakka og gengu karlar og konur til raksturs.