Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Vallarsláttur

Úr Wikiheimild

Einu sinni keypti séra Hálfdan að kölska að slá allan völlinn á Felli á einni nóttu. Átti kölski að vera búinn að því á miðjum morgni, en völlurinn er hér um 24 dagsláttur. Lofaði séra Hálfdan að gefa kölska sjálfan sig að launum ef hann gæti þetta, en yrði hann ekki búinn með allan völlinn átti hann að verða af kaupinu. Nú fer kölski að slá völlinn um háttatíma. Hefir prestur gætur á honum og þykir slátturinn ganga undra fljótt. Fer þá prestur út í kirkju og tekur þar Davíðssaltara og fer með út á tún og leggur á þúfu eina. Síðan fer prestur inn. Um miðjan morgun fer prestur að hyggja að kölska. Er hann þá búinn með allt túnið nema þúfuna sem saltarinn lá á. Var hann að smáskjótast að þúfunni og höggva í hana, en hrökk jafnótt frá. Gerði þá prestur honum vart um sig og var nú kölski af kaupinu.