Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hafnsögumaður í Flatey
Hafnsögumaður í Flatey
Eggert hafði skamma stund búið í Flatey er farið var að biðja konung um að setja þar verzlunarstað með því þar er höfn ágæt, en erfitt fyrir Breiðfirðinga að sækja til annara kaupstaða. Og sem konungur hafði leyft þetta sendi hann skip mikið með húsavið og annað til Flateyjar. Var þá Eggert kjörinn hafnsögumaður í Flatey og stýrði hann hinu fyrsta þilskipi til hafnar þar. Er svo sagt að þann dag hafi veður verið ískyggilegt og hafi skipherrann orðið hræddur er hann sá grunnboðana út af Flatey skauta hvítu og kallað Eggert sigla mikla glæfraleið, dregið síðan sverð úr slíðrum og sett oddinn fyrir brjóst Eggerti og staðið þannig fyrir framan hann meðan honum sýndist hættan mest og hótað að reka Eggert í gegn ef skipið bæri á grunn. Eggert lét sem hann sæi eigi þetta og stýrði sem áður. En sem Danir voru komnir til hafnar skipti um skap þeirra. Bauð skipherrann Eggerti til borðs með sér; en hann kvað þess eigi þörf og fór þegar í land; þó þáði hann rífleg hafnsögulaun er honum voru boðin.