Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Halla breiðir tað

Úr Wikiheimild

Einu sinni átti Halla tað mikið barið á túni sínu, en það var óbreitt. Eitt kvöld leit út fyrir vætu. Vinnufólkið spurði þá Höllu hvort hún vildi ekki láta breiða taðið á vellinum um kvöldið. Halla sagðist mundi sjá fyrir því og bað fólkið að fara að hátta og svo var gjört. Háttuðu allir á bænum nema Halla, hún var alein á ferli. Enginn vissi hvað hún var að sýsla. Þá bauðst til drengur einn sem inni var, að fara og forvitnast um hvað Halla væri að gjöra. Fór hann þá fram og skyggndist út um rifu sem var á bæjarhurðinni. Sá hann þá að Halla sat rétt fyrir utan hurðina á stéttinni með prjóna sína, en ósköp margir púkar voru að breiða taðið á túninu. En í því að drengurinn ætlaði að snúa frá hurðinni aftur inn í bæinn varð Halla vör við hann. Rak hún þá prjón inn um rifuna á hurðinni og kom hann í auga drengsins sem hann hafði lagt við rifuna. Missti hann þá augað og var ætíð blindur á því síðan.