Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sláttumenn Höllu

Úr Wikiheimild

Það var siður Höllu að hún sagði vinnumönnum sínum um sláttinn að þeir skyldu á hverju kvöldi leggja alla ljáina á vissan stein á engjunum. Þeir gjörðu það, en þókti skipanin kátleg. Þó þókti þeim það enn undarlegra að ljáirnir voru á hverjum morgni nýdengdir á steininum þar sem þeir vissu þó enga von til að neinn dengdi þá. Þeim var nú mikil forvitni á að vita hvernig á þessu stæði, en gátu það ekki. Þá tók einn þeirra það til bragðs að hann bar eitt kvöld ljáinn sinn heim með sér og lagði hann undir koddann sinn um nóttina. En þegar hann ætlaði að taka þar ljáinn um morguninn fann hann þar engan ljá, heldur mannsrif. Sagði hann lagsmönnum sínum frá þessu. Þóktust þeir nú sjá hverjum brögðum Halla beitti, og fékkst enginn þeirra um þetta framar.