Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Halla flyzt norður

Úr Wikiheimild

Svo finnst ritað í fornum annálum að í svartadauða hafi því nær gjöreyðzt allar sveitir í Norðurlandi af fólki svo að í Bárðardal voru einungis tvö börn eftir lifandi, og var annað þeirra Ívar fundni sem Ívarsætt er við kennd. Svartidauði kom aldrei á Vestfirði og er það eignað gjörningum Vestfirðinga. En er plágunni létti af fluttust heilar ættkvíslir af Vestfjörðum norður og byggðu aftur hin auðu héruð.

Er svo sagt að Straumfjarðar-Halla hafi um þetta leyti flutzt norður með hyski sínu og búið að Grænavatni við Mývötn. Halla var haldin fjölkunnug mjög og þótti ærið harðleikin þegar því var að skipta. Halla hafði rausnarbú mikið að Grænavatni og hafði hún selför í Sellöndum við Sellandafjall; sér enn merki til seltóftanna og heitir Höllusel enn í dag.