Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Halla rekur sátur

Úr Wikiheimild

Það var eitt sumar að lengi höfðu gengið óþurrkar og átti Halla mest allt hey sitt á engjum. Nú kemur þerrir og breiða menn hey sín og Halla einnegin, og er heyið er orðið þurrt lætur hún sæta það upp á enginu, en bindur ekki heim og þókti það kynlegt. En um kvöldið er fólk er komið af engjum spyr það Höllu hvenær binda skal heyið, en hún segir það skuli sig það engvu skipta láta. Halla tekur fólkinu vara fyrir því um kvöldið að það komi ekki út um nóttina og enginn skuli róta bæjarhurðu á undan sér að morgni; fólkið lofar þessu. En ein vinnukonan var mjög forvitin og vildi vita hvað því gæti valdið að Halla vildi ekki láta koma út um nóttina. Fer hún því á fætur árla um morguninn og skeytir ekki boði Höllu, heldur gengur út; litast hún í kringum bæinn og sér vegsummerki að Halla er komin heim undir túnið með allar sáturnar. Hafði hún vönd í hendinni og veifaði honum; runnu þá sáturnar rakleiðis heim á undan henni. En svo brá við er vinnukonan kom út að sáturnar settust allar kyrrar og kom Halla þeim hvergi úr stað, en svo er sagt að vinnukonan hafi ærzt og aldrei orðið með viti síðan.