Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Halla hirðir hey
Halla hirðir hey
Eitt sinn kom Sæmundur hinn fróði kynnisför í Straumfjörð til Höllu systir sinnar; var þá um heyannir. Var Sæmundur nokkrar nætur að kynni.
Svo bar við einn morgun meðan Sæmundur prestur var að Halla kemur út snemma morguns og gáir til veðurs; loft var þykkt og ábúðarlegt og hrannaði loft; þótti henni því sem gjöra mundi storm og stórrigningu er á liði dag, en taða mikil var þurr á túni og lá heyið sumt flatt, en sumt í sæti. Þegar Halla kemur inn aftur segir hún öllu heimafólki sínu að sofa í náðum og bannar harðlega nokkrum manni út að líta, en þau Sæmundur fóru út tvö ein. Og er þau komu svo frá dyrum að hún hugði heimamenn er inni voru ei heyra mundu segir hún við Sæmund: „Hey vort þarf skjótrar hirðingar því veður er allótrygglegt og ætla ég okkur báðum starfa þann, en hvört kýs þú heldur, bróðir, að binda heyið og færa á garð eða hlaða úr?“ Sæmundur kaus að hlaða úr heyinu.
Leið nú morgunninn svo fólkinu er í bænum var tók að leiðast. Gekk þá húskarl einn til dyra og ætlaði út að líta. En þegar hann kemur að bæjarhurð er hún svo föst aftur að hann getur hvergi bifað. Rifa ein var á hurðinni og leggur húskarlinn auga sitt við rifuna og sér svo hvað úti gjörist: Gengur Halla að flekkjum og sátum hvörju eftir annað og veifar yfir svuntu sinni og segir: „Upp þú – og rakið með.“ Sá hann þá að heyið flaug jafnóðum í loft upp og heim í garð til Sæmundar, en hann tók við heyinu og hlóð úr og átján púkar með hönum og höfðu þó naumlega undan.
Þegar húskarlinn hafði orðið þessa vísari vildi hann aftur frá hurðinni, en var fastur orðinn við hana á auganu og gat ekki losazt og varð svo að vera þar kyrr þar til Halla kom. Bað hann hana þá að losa sig og gjörði hún það, en sagði hönum um leið: „Það er ráð mitt að þú gjörir ekki oftar það sem ég banna þér.“