Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Húskarlar Höllu róa til fiskjar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Húskarlar Höllu róa til fiskjar

Einu sinni vildu húskarlar Höllu róa, en hún vildi annað láta gjöra og þótti veður ískyggilegt og sagði að þeim mundi ekki vel gefast róður þann dag. En hvað sem Halla sagði réru þeir og fram á Leir; svo heitir djúpmið eitt fyrir Mýrum; er það djúpt af Þormóðsskeri. En er þeir vóru komnir í sátur tók að hvessa á norðan og styrmdi svo óðum að þeir gátu ekki við haldizt, lögðu því af stað og stefndu til lands, en gekk mjög lítið, gátu þó loks með naumindum barið upp undir Þormóðssker og fóru þar að ráðgast um hvört lengra skyldi halda; réðu þeir af að halda áfram. En þegar þeir vóru komnir inn á álana fyrir framan Svartafles fór veðrið vaxandi svo þeir drógu ekki lengra, en farið var að dimma, en með öllu ólendandi í Þormóðsskeri fyrir brimi og ósjó svo ekki var annað sýnna en að þá mundi til hafs reka.

Þegar þeir vóru í þessum nauðum staddir sáu þeir reyðafisk mikinn er renndi fram hjá skipinu og hélt til lands. Ólafur fóstursonur Höllu var á skipinu. Hann réði skipverjum að róa eftir fiskinum og svo gjörðu þeir, og fengu þeir dregið í vari fiskjarins inn til lands. En er kom inn í rastarkjaftinn hvarf reyðurin. Náðu þeir þannig landi með heilu og höldnu. Og er þeir voru lentir gengur Halla til strandar og spyr þá hvört þeir hefðu nokkurs orðið varir, en þeir sögðu henni með sannindum frá því sem við hafði borið í þeirra ferð, en hún kvað þá ei mundu hafa landi náð, hefðu þeir ekki sín að notið, og réði þeim til að róa ekki oftar þegar henni væri það móti skapi. Er það ætlan manna að Halla muni sjálf hafa verið reyður sú hin mikla er þeim bjargaði og muni hún hafa brugðið á sig hvalslíki.