Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Halla fer í kaupstað (1)

Úr Wikiheimild

Einu sinni sem oftar kom skip út í Hraunshöfn vestra; það er í grennd við það hvar Búðarverzlunarstaður er nú á dögum. Halla vildi finna kaupmenn og kaupa ýmsar heimilisþarfir því hún var jafnan vön að skipa vel til bús síns. Réðist hún því sem oftar kaupstaðarferð vestur í Hraunshöfn með marga hesta í lest og lét þar að auki reka tólf sauði gamla til að selja kaupmönnum. Fór hún sem leiðir liggja, fyrst upp undir fjöll og síðan út sveitir þær sem þar verða fyrir. Kom hún við í Hraundal enum ytra; þar bjó þá Ólafur fóstursonur hennar. Þegar Ólafur sér lest Höllu og hvað á var segir hann: „Hart er í böggum fóstra!“ Þá segir Halla: „Þegi þú stráki, nógu mikið hef ég kennt þér.“ Þaðan heldur Halla leið sína; segir ekki af ferðum hennar fyrri en hún kemur til kaupstaðar og finnur kaupmenn. Leggur hún inn allmikið af smjöri og tólg og sauði þá er hún hafði meðferðis, tekur síðan út hjá kaupmönnum það er hún vildi og mátti koma á lest sína. Og er hún hafði búið upp á lest sína leggur hún af stað. En þegar hún var af stað farin verður kaupmönnum litið á vöru þá sem þeir höfðu keypt af Höllu. Var þá smjörið og tólgin orðin að grjóti, en sauðirnir að músum. Hafði Halla gjört þá sjónhverfingu að grjótið sýndist smjör og tólg, en mýsnar sauðir. Þegar kaupmenn urðu varir þessara pretta brá þeim illa í brún og söfnuðu þegar mönnum og veittu Höllu eftirför. En þegar Halla verður vör við eftirförina slær yfir niðdimmri þoku svo hvergi sá. Náðu þó leitarmenn Höllu og lest hennar við Haffjarðará, en hún villti þeim svo sjónir að þeir sáu ekkert annað en stórþýfða móa og kletta þar sem hestar hennar voru. Urðu þeir svo aftur að hverfa að þeir fundu hvorki Höllu né hennar föruneyti, en hún hélt hindrunarlaust leið sína og komst með öllu heilu og höldnu heim í Straumfjörð.