Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sonamissir Höllu og gjafir til Álftaneskirkju

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sonamissir Höllu og gjafir til Álftaneskirkju

Eins og áður er frá sagt átti Halla tvo sonu. Þegar hér var komið sögu vóru þeir orðnir fulltíða menn og fóru þeir á sjó með öðrum mönnum úr Straumfirði eitthvört sinn; er það sumra manna sögn að þeir hafi farið móti kaupskipi er kom af hafi til að vísa því til hafnar á Straumfjarðarröst. Hrepptu þeir þá ofviðri, ósjó og brim og týndust í Mjóasundi; er það sund eitt örmjótt svo ekki er meira en árarúm á breidd, millum Þormóðsskers og Mjóaskers. Er þá sagt að Halla hafi mælt svo um að aldrei skyldi fastur kaupstaður í Straumfirði þrífast og þykir það hafa orðið að áhrínsorði enn sem komið er.

Sonadrukknunin féll Höllu mjög nær um trega og einkum fékk henni það harms er lík sona hennar fundust ekki svo þau fengju leg í vígðum reit. Hét hún því á Álftaneskirkju að gefa henni slíkt legkaup eftir sonu sína ef þeir fyndust og næðu þar legstað að hún bæri síðan menjar sínar. Enda rak lík beggja Höllusona af sjó skömmu eftir þetta áheit og voru jarðaðir að Álftaneskirkju. Gaf þá Halla nefndri kirkju Þormóðssker er hún á enn í dag. Var sker þetta gagnauðugt í fyrri daga af æðavarpi, selveiði og grasi, en arður þess hefur á hinum síðari árum mjög af sér gengið.

Aðra gjöf gaf Halla einnig Álftaneskirkju þó hún sé nú fyrir löngu undir lok liðin, það var eirketill sterkur og vandaður, með þeim ummælum að í hönum skyldi matreiða handa presti í hvört sinn er hann fremdi heilagt messuembætti í Álftaneskirkju og mundi aldrei góðan beina skorta handa presti meðan ketill sá væri við líði og brúkaður til þess eins er hún hefði fyrir mælt, en ekki mætti ketilinn frá Álftanesi flytja og skyldi hann ekki þaðan heill komast. Er svo mælt að ketill þessi hafi lengi verið til á Álftanesi og brúkaður eftir fyrirmælum Höllu unz prestur einn sérdrægur og ágjarn ágirntist ketilinn og taldi sig eiga af því hann var gefinn að vissu leyti einungis prestinum til nota. Tók því prestur ketilinn og ætlaði að hafa heim til sín, en þegar hann kom með ketilinn upp á Virkið – svo heitir hæð sú sem er fyrir ofan bæinn og kirkjuna – datt sjálfkrafa botninn undan katlinum svo hann ónýttist með öllu.

Má af sögunni um þessar gjafir Höllu marka hvörsu hún hefur rækt kirkjur og kennimenn þó hún legði einnig stund á hin fornu fræði.