Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Halldór á Finnbogastöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Halldór á Finnbogastöðum

Halldór sá er þegar var getið um var galdramaður mikill, og er saga sú er hér kemur til marks um það hversu hann var máttugur. Það var einhverju sinni þegar Halldór bjó á Finnbogastöðum að stolið var fiski talsverðum úr hjalli hans; varð þá margrætt um hver mundi stolið hafa fiskinum, en Halldór lét fátt yfir. Svo stendur á að þegar fólk fer til kirkju að Árnesi liggur vegurinn mjög hjá fiskihjöllunum á Finnbogastöðum. Það var einn sunnudagsmorgun þegar margt fólk fór um þennan veg til kirkjunnar að maður sá sem stolið hafði fiskinum gekk með fiskabaggann er hann stolið hafði, á bakinu í kringum hjallinn svo allir sáu hver maðurinn var, og fékkst hann ekki til að fara þaðan fyrr en Halldór kom og leyfði hönum að fara þaðan eftir það hann hafði gefið hönum nokkra ráðningu fyrir stuldinn. Vissu menn þá að þetta hafði verið af Halldórs völdum.