Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hallur á Horni og Vigfús prestur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hallur á Horni og Vigfús prestur

Þegar Vigfús prestur Benediktsson vígðist til Staðar í Aðalvík á Hornströndum fór hann vestur þangað, en flutti ekki á sjálfan kirkjustaðinn, heldur á aðra jörð þar í víkinni; vóru þar þá svo léleg húsakynni að hann gat ekki búið í þeim. Varð hann því að fara og kaupa sér viðu til bæjarins og byrjaði því ferð sína sjóleiðis á tveimur skipum að Bátsendum til að sækja tré. Gekk þeim ferðin vel áfram, tekur svo út alls lags tré og seinast kaupir hann bjálka sem þar lá; hleður svo skipin og heldur svo á stað. En þegar þeir eru komnir skammt eitt gjörir á þá ofsaveður svo sjórinn snýst um. Brúar nú skipverja illa við þessu og segja þetta stafa af göldrum (sem þá voru mjög tíðkaðir á Vestfjörðum). Biðja þeir því prest í skyndi að rannsaka öll trén hvört ekki séu ristar galdrarúnir á neitt þeirra. Fer prestur þá og athugar í skyndi á efstu trjánum á sínu skipi og finnur á bjálkanum einhverjar myndir sem hann þekkir ekki; tekur samt öxi sem þar lá og höggur þetta af, en strax eftir þetta sléttlygnir svo þeir komust klakklaust af. En eftir á kom það upp að bóndi nokkur að nafni Hallur og bjó á bæ þeim er að Hornbergi hét hafði haft ágirnd á trénu og fekk ei, en menn vissu að hann var einn sá versti galdramaður og hafði hann ætlað að fyrirkoma þeim er tréð keypti.

Það var eitt með öðru til merkis hvað alræmdur þessi Hallur var að prestur sá er næstur var á undan síra Vigfúsi skrifaði honum bréf og segir honum að hann muni eiga við bágan kost að búa þar sem sé að eiga við Hall og engin ráð geti hann kennt honum nema ef hann geti afleyst hann og muni þó ekki ein duga heldur þrjár. Tekur þá Vigfús prestur það ráð að eitt laugardagskvöld þegar hann ríður til kirkjunnar, að hann fer til Halls og biður hann koma til kirkju á morgun. Á sunnudaginn kemur Hallur og sezt á kirkjuþrepskjöldinn með bakið inn og hefur hettu sína á höfði og reykjarpípu í hvofti sér og puðrar mikið. Þarna situr hann þar til prestur byrjar blessunarorðin, stendur hann upp og sína leið á stað. En þegar messa er úti sendir prestur þrjá menn að elta kall, en þá gjörir svo mikla þoku á þá að þeir gátu aldrei fundið bæ hans, en lentu altént til baka. Annan sunnudag hefur hann Hall með sér og lætur nú þrjá menn vakta hann við kirkjudyrnar, en þegar prestur byrjar blessunarorðin brýzt kall svo um að þeir missa hann og verður nú ekki af aflausn þessa daga. Þriðju helgi hefur prestur hann með sér og afleysir hann fyrir messu nauðugan viljugan og svo gengur aðra helgi þar á eftir. En á laugardagskvöldið fimmtu helgina þegar prestur ætlar að ríða á kirkjustaðinn veit hann ekki fyrri til en einhvör grár mokkur kemur í loftinu og þrífur prest af hestinum og með sér og allt þar til yfir sker sem þar var út í sjónum. Þar sezt mokkurinn og hverfur, en prestur stendur þar eftir eins og utan við sig fram á nótt að hann veit ekki fyrri til en honum finnst hann þrifinn og í sama bili er hann horfinn í kirkju sína. Þar er hann það eftir var nætur og allan morguninn, býr sig undir messugjörð og færist í hempu og rykkilín og gengur svo um gólf án þess að láta vita af sér. En þegar kirkjufólkið var komið segir staðarhaldari við það að því muni til lítils að koma því prestur sé ókominn, en hestur hans með öllum reiðtygjum hafi komið hér í gærkvöld, og er ekki ólíklegt að Hallur hafi eitthvað leikið á hann. En í þeirri svipan gengur maður út að kirkju og lítur inn og sér hvar prestur er. Aðvarar hann nú fólkið og er messa byrjuð.

Nú víkur aftur sögunni til konu síra Vigfúsar sem sat heima á bæ sínum, en af kunnáttu sinni hafði vitað allt um hagi bónda síns og með fjölkynngi flutt hann úr skerinu. Hún gjörir nú Halli þann gjörning að hann helzt nú ei heima nema fer til kirkju og sezt í hana. En þegar langt er komið í prédikunina heyrir prestur að tvær kellingar fara að tala saman fram í kirkju og það svo hátt að prestur heyrir að önnur segir: „Ætli hann verði þá hérna lengi, presturinn þessi?“ Þá svarar hin og segir það muni nú aldrei lengi verða því nú sé verið að sækja hann Galdra-Jón, „og á hann að drepa hann í nótt“. Í endaðri messu tekur prestur nú Hall í þriðja sinn og heldur nú svo harða áminningarræðu yfir honum að kall viknar og lofar nú bót og betran.

Nú er að segja frá því að prestur er nú fremur venju nóttina á kirkjustaðnum. Um kvöldið er honum vísað til rúms í stofu sem var inn úr skála. Þegar prestur er lagztur út af og hefur slökkt ljós er hjá honum var heyrir hann að fólkið fram í skálanum fer í ákafa að tala við mann sem hann af málróm heyrir að er ókunnugur. Dettur honum þá í hug umræða kellingar um daginn og grunar nú að þetta muni vera Galdra-Jón og verður nú fremur felmstfullur; liggur samt kyrr í rúminu þar til að allt er fyrir nokkru þagnað. Þá stendur prestur upp og gengur fram í skála, tekur þar ljóstíru og lýsir nú vandlega að öllum í rúmunum. Sér hann hvar ókenndur maður sefur í einu rúmi og er í öllum fötum; var hann í tveimur peysum ljósbláum og höfðu þær sprottið frá honum. Sér hann þá á kver í barmi hans sem hann nær og gengur svo inn í stofu og sefur nú í ró um nóttina. En um morguninn er honum sagt að Galdra-Jón sem þar hafi verið næturgestur hafi orðið bráðkvaddur í rúminu, en prestur lét ekki neitt á bera að hann hefði náð kveri hans (sem hann mátti ekki án vera svo hann fékk bana), heldur færði konu sinni það og skildi hún þá fræði sem í því var. Vigfús var þarna prestur eitt ár eftir þetta og var Hallur allt annar maður eftir þriðju aflausnina.