Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sendingin

Úr Wikiheimild

Einu sinni var ungur prestur [er Vigfús hét] á Stað í Aðalvík vestur og átti hann í deilum við bræður tvo þar í sókninni er voru hinir mestu yfirgangsmenn og þóttu kunna sér margt. Prestur fór ávallt halloka fyrir þeim bræðrum og loks hélzt hann eigi lengur við í sókninni og sótti því um Einholt á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. En áður en hann fór austur hafði hann gjört þeim bræðrum einhvern grikk er þeir vildu launa honum og vöktu því draug er þeir sendu til Vigfúsar prests til að drepa hann. Draugurinn á að hafa verið meðalmaður á hæð, skinnklæddur og dregið eftir sér skinnklæðin. Hann kom að Tvískerjum í Öræfum í rökkrinu á sprengikvöld og sváfu allir nema bóndi er hét Einar og var kallaður sannsögull maður og greindur. Hann heyrði í rökkrinu að hurðin á húsinu hrökk upp af sjálfu sér, fór þá út, en sá engan, læsti því hurðinni aftur og lagðist niður. En er hann hafði skamma stund legið heyrir hann aftur lokið upp hurðinni, og fór allt sem áður. En í þriðja sinn kom inn maður í skinnklæðum er átti að vera sendingin. Eigi heilsar komumaður. Bóndi spyr hann hvaðan hann sé. En hinn kveðst vera af Vestfjörðum. Bóndi spurði hann frétta. En hinn sagði að Einar ætti dauða á út í högum. Bónda fór að gruna margt er hann heyrði að Vestfirðingur þekkti fjármark hans og spyr hann hvernig hann geti vitað að hann eigi ána. Hinn þagði. Bóndi spyr hann þá að lykli er týnzt hafði fyrir tuttugu árum og sagði komumaður til hans og nokkurra fleiri hluta er bóndi spurði hann. Þá fannst bónda draugurinn vera kominn aldeilis fast að sér eða ofan yfir sig og herðir hann þá upp hugann og segir: „Farðu út.“ Draugur fór þá seinliga út, en allar dyragættir fór hann með á herðunum og fundust þær í molum út um haga daginn eftir. Draugur hélt áfram ferð sinni til þess er hann kom að Einholti, en prestur átti fóstru er kunni margt. Og eitthvert kveld lætur kerling prest sofa í sínu rúmi, en leggst sjálf í hans. Um morguninn er komið á fætur og sjá menn þá að rúmfötin í rúmi kerlingar eru öll sundurtætt og rifin, en sjálf lá hún fyrir framan rúmstokkinn og var svo máttfarin að hún varla gat sagt frá viðureign sinni við drauginn. En þó sagði hún að þeir bræður varla mundi senda presti sendingu aftur. Síðan dó hún. – Eftir því sem ég gat næst komizt á þetta að hafa gerzt frá 1750-1800 einhvern tíma.