Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hestastuldurinn og rauða peysan

Úr Wikiheimild

Eitthvert sinn komu piltar tveir úr útveri; voru þeir gangandi en farnir að þreytast. Hittu þeir þá hesta sem Eiríkur átti, tóku þá og ætluðu að ríða þeim austur eftir Selvogsheiði. En þegar þeir ætluðu af baki þá ærðust hestarnir; piltarnir ætluðu að fleygja sér af baki, en þá voru [þeir] fastir á baki. Annar þeirra tók það ráð að hann skar bótina úr klofinu á brókinni, sat þá brókin eftir, en hinn hafði ekki lag á að koma þessu bragði við. Hestarnir stukku heim að Vogsósum og pilturinn annar á baki. Prestur var úti; var þá pilturinn laus og beiddi prest forláts. Prestur tók því vel, en sagði að ekki væri tilvinnandi að taka Vogsósahestana því þeir væri flestir illa tamdir. En þegar prestur sá bótina á hinum hestinum brosti hann og sagði eigandann laglegt mannsefni og kvaðst vilja finna hann. Nokkru síðar kom hinn pilturinn. Sýndi prestur honum bótina og spurði hvört hann þekkti hana, en pilturinn lét sér ekki bilt verða, heldur sagði sem farið hafði. Prestur brosti og bauð honum til sín og þáði hann það og var hjá honum lengi síðan. Er það sagt að prestur hafi kennt hönum eitthvað í fræðum sínum.

Eitt sinn bar svo til að piltur þessi reið með presti út að Krýsivík, en er þeir voru skammt á leið komnir segir prestur að sér hafi gleymzt að taka með sér handbókina, biður því piltinn sækja hana og segir honum hvar hún sé, en tekur honum vara fyrir að ljúka bókinni upp, og heldur prestur síðan áfram, en pilturinn sækir heim bókina. Þegar hann er kominn nokkuð áleiðis segir hann við sjálfan sig að ekki muni saka þó hann líti í bókina, gjörir það síðan. En allt í einu heyrir hann allt í kringum sig sagt í mesta ákafa: „Hvað eigum við að gjöra?“ Pilturinn segir strax: „Þið eigið að flétta reipi úr sandinum hérna,“ en þar var sandur mikill. Síðan lét hann aftur bókina og hélt áfram sem áður, hitti prest og fékk honum bókina. Tók prestur við, leit í hana og segir að nú hafi hann svikið sig því hann hafi lokið bókinni upp. Pilturinn segir það satt vera og segir sem farið hafði; lét prestur þá vel yfir. En er þeir fóru heimleiðis og þar um sem opnuð var bókin þókti þeim sem þar lægi ótal fléttustúfar og sandinum öllum rótað um. Það var þessi piltur sem reið með presti í annan tíma er hann fór til embættis að Krýsivík. Hafði þá prestur um morguninn farið í nýja peysu rauða að lit sem honum var send að norðan frá kvenmanni sem hafði áður átt í brösum við prest, og lézt hún senda honum peysuna til heilla sátta, en prestur hafði aldrei viljað í hana fara fyrr en þennan morgun því kuldi var mikill. En er þeir voru skammt komnir gjörðist presti mjög óhægt og fór það í vöxt eftir því sem á leið allt þar til að prestur veltur af hestinum og hafði þá engan frið, en þóktist þá sjá vísan bana sinn og segir þetta gjörninga og komi allt af peysunni, en nú segist hann ekki geta við neitt ráðið. Pilturinn tekur í flýti kníf úr vasa sínum og ristir af presti peysuna; kom hann þá fljótt til sjálfs síns. Prestur kveðst eiga honum líf að launa og kvaðst launa skyldi. Pilturinn segist ekki ætla til launa fyrir þetta, en segir presti verði lítilmannlega að láta eina stelpu narra sig þannig. Prestur sannaði það, en sagði ennfremur að fyrst peysan hefði ekki drepið sig þá væri ekki öll tíð forhlaupin.