Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Peysan og prestsdóttir að norðan

Úr Wikiheimild

Miklar og margar sögur fóru af Eiríki presti um landið og sögðu menn að enginn mundi standa honum jafnfætis í listum sínum. Þetta heyrði prestsdóttir ein fyrir norðan; hún vildi reyna hvort engin ráð væru til að yfirbuga Eirík. Vann hún þá nærpeysu mjög vandaða og sendi Eiríki hana að gjöf. Eiríkur tók við sendingunni og leit á án þess að segja neitt og lét hana síðan ofan í kistu. En nokkru síðar fór hann eitthvað frá bænum í brunagaddi og kulda; tekur hann þá peysuna og fer í hana. Hann hafði mann með sér. Eiríkur biður hann að muna sig um það að ef hann sjái nokkur missmíði á sér þá skuli hann rista af sér fötin hið allra bráðasta og ná sér úr peysunni. Síðan fara þeir á stað, en þegar þeir koma út að vallargarðinum fellur prestur af baki hestinum með froðufalli. Fylgdarmaðurinn þrífur þegar til klæða prests, ristir þau af honum og nær honum úr peysunni; raknar Eiríkur þá undireins við og þakkar manninum hjálpina, tekur síðan peysuna, snýr heim aftur og læsir hana niður í kistu sem áður.

Leið nú fram á vetur svo ekki bar til tíðinda. Eitt kvöld á vökunni er barið á dyr í Vogsósum; þá var bylur ákaflegur og frost mikið. Eiríkur segir: „Einhver er þar seint á ferð og látum hann berja annað sinn.“ Skömmu seinna er barið aftur; þá stendur Eiríkur upp og fer sjálfur til dyra. Hann lýkur upp og er þá prestsdóttir þar komin, sú sem hafði sent honum peysuna; hún var í tómum nærfötunum. Eiríkur biður hana að ganga í bæinn og segir að nú sé ekki meyjaveður úti, „og munt þú hafa brýnt erindi, heillin.“ Hún lét lítið yfir því og fór inn. Var hún þar hjá Eiríki um veturinn og námu þau hvort að öðru það sem annað kunni framar hinu. Eiríkur hafði seitt stúlkuna til sín í hefndaskyni fyrir peysuna. Það segja sumir að þau hafi síðan átzt og búið í Vogsósum.