Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Situr þú hérna, kindaveslingur?

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Situr þú hérna, kindaveslingur?“

Eitt sinn var síra Eiríkur á ferð í Norðurlandi. Kom hann þar til gamallar konu og tók hún móti honum tveim höndum. Að skilnaði gaf hún honum nýja prjónapeysu bláa og bað hann fara í hana ef honum yrði kalt á suðurheiðum. Þeir fengu hörð veður suður á heiðum. Fór síra Eiríkur þá í peysuna, en er hann var búinn að hneppa hana féll hann niður með froðufalli. Fylgdarmaður hans skar hana utan af honum og batnaði síra Eiríki þá strax. Um veturinn á einu kvöldi bað síra Eiríkur fólk að fara ekki fyrr á fætur en hann að morgni komandi. Um morguninn rís hann fyrstur upp; veður hafði verið biturliga kalt um nóttina. Situr þá kerling á bæjarkampinum með koppinn sinn mállaus. „Situr þú hérna, kindaveslingur? Gletztu ekki oftar við hann Eirík á Vogsósum.“ Hafði hún farið til sinna eyrinda um kvöldið og gengið um nóttina suður að Vogsósum. Prestur lét hjúkra henni sem bezt og var hún hjá honum þar til um vorið að hann lét fylgja henni heim.