Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Huldukonan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldukonan

Arnþór átti vinkonu – huldukonu eina sem átti heima í steini langt á fjalli vestur frá bænum Björgum, og hana heimsótti hann oft því hún var mjög fróð og gat stundum sagt honum það sem hann ekki vissi enda þó fróður væri – en henni var Arnþór næsta kær. Á einu hausti var það að suður frá bænum Sandi, í hraunið þar sem heita Stiggeirar, sást eldur, líka sem bál væri kynt, hvert kveld þegar dimma fór, en enginn vissi hver eldinn mundi kynda. En þegar þetta hafði sézt nokkur kveld fór Arnþór að hitta vinkonu sína og spurði hana hvernin á eldi þessum stæði, en hún kvað hann það engu skipta og bað hann að forvitnast ekkert um þennan eld hversu oft sem hann sæi hann. En nokkru seinna eitt kveld þegar eldurinn kom upp þoldi Arnþór ekki lengur við fyrir forvitni og gekk á stað suður með hrauni, en þegar hann nálgaðist eldinn sá hann að karl sat við eldinn, ekki mjög lítill, með stóran járnstaf með krók á enda í hendi, sem hann hlæddi með að eldinum. En þegar hann kom enn nær stóð karlinn skjótlega á fætur og reiddi stafinn að Arnþóri, en í því bili kom vinkona hans að og hjálpuðust þau síðan að að fyrirkoma karlinum, svo að hans varð aldrei síðan vart, en áttu þó fullt í fangi því karlinn var hraustur og hinn versti viðureignar.