Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sendingarnar

Úr Wikiheimild

Eitt sinn vóru Arnþóri sendir 12-16 sveinar af Vesturlandi og áttu þeir að taka bæinn Sand upp með Arnþóri og öllu fylgjandi og flytja vestur, en þeir komust ekki nema að fljótinu, gengu þar um gólf og mæltu fyrir munni sér:

„Arnþór á Sandi,
eg vil finna þig;
dregst að höndum vandi,
komdu og finndu mig.“

En Arnþór kom ekki að heldur, en þegar honum leiddist úr þeim nauðið fékk hann rauðan sokkbol hjá konu sinni, fór með hann út á haug og tíndi hann fullan með saur, kom honum síðan til sendisveinanna og skipaði þeim að fara til baka og færa sokkbolinn þeim sem sendi þá. Með það sneru þeir aftur. En á leiðinni vestur, á einni heiði, mætti þeim maður sem sá til þeirra að þeir vóru alltaf að fljúgast á um sokkbolinn því hver um sig vildi hljóta þá sæmd að geta afhent hann húsbóndanum þegar heim kæmu.