Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Illakelda

Úr Wikiheimild

Einu sinni gerði biskupinn á Hólum sér ferð út að Felli og ætlaði að setja séra Hálfdan af hempunni fyrir galdra hans. Gekk sú ferð tálmalaust út fyrir Hrollleifsdalsá; hún skilur Fells landareign frá Tjörnum. Þar skammt fyrir heiman er keldudrag sem kallað er Illakelda. Prestur vissi þegar er biskup fór á stað um morguninn frá Hólum; sendir hann þá kölska á stað til að moka upp Illukeldu. Fer nú kölski til þessa verks, svo þegar biskup kemur að keldunni er hún alveg ófær, og kemst biskup hvergi heim að Felli og snýr aftur við svo búið.

Nú mátti ekki lengi svo búið standa að keldan yrði ófær. Sendir séra Hálfdan þá kölska aftur til að brúa kelduna. Varð kölski að sækja allt brúargrjótið niður í fjöru, en það eru nokkur hundruð faðmar. Hleypti nú kölski grjóti niður í botn á keldunni og brúaði svo upp úr henni. Brú þessi er á að gizka hér um tólf faðma löng og fjögra álna breið. Viðhelzt hún enn og lítur út fyrir að verða ævarandi.