Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kölski sækir vatn í meisum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kölski sækir vatn í meisum

Einhvern tíma var stúlka ólétt hjá séra H.; hún átti að vera og var í fjósinu. Einhvern tíma snemma veturs kom til hennar drengur og bauð henni að bera vatn, mykju og meisa fyrir hana um veturinn svo lítið bæri á. Hún kvaðst ei geta borgað það neinu. Drengur kvaðst ei gefa um neina borgun nema ef hún vildi gefa honum það sem hún bæri undir svuntunni. Hún sagði það væri velkomið. Nú leið veturinn fram á pálma svo að drengurinn gjörði öll vik fyrir hana. Á pálmasunnudag kallaði prestur hana fyrir sig og spurði hvaða drengur hjá henni hefði verið í fjósinu í vetur. Hún sagði það hefði enginn verið. En prestur gekk á hana svo að hún loks varð að segja honum satt og rétt. Þá sagði nú prestur henni að þetta hefði verið fjandinn og hún væri nú búin að lofa honum barninu sem hún gengi með, og sagði að nú væri ekkert annað ráða en að á páskadaginn skyldi hún fá drengnum meisana til að sækja vatn í og segja honum hann yrði af kaupinu ef hann léti nokkurn dropa fara niður. Hún hlýddi á páskunum þessum ráðum og kenndi presti um að hann hefði tekið föturnar. Kölski komst með vatnið í meisunum inn á flórinn, en missti það þar allt niður. Svo fór hann aðra og þriðju ferðina og fór þá allt á sömu leið, svo hann snautaði burtu í bræði sinni. En um daginn meðan prestur var að messa bar kölski allan mykjuhauginn fyrir kirkjudyrnar. Þá skipaði prestur honum að bera hauginn burt aftur í kjaftinum, og varð kölski að hlýða því og sleikti seinast svo vel upp að far var eftir í helluna fyrir utan kirkjudyrnar.