Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón krukk

Úr Wikiheimild

Einu sinni settist maður á krossgötur á nýjársnótt; hann hét Jón þó sumir nafngreini hann ekki. Hann sat þar alla nóttina fyrir álfafólki svo enginn vissi hvað honum leið þangað til morguninn eftir að hann kom heim og sagði frá því sem fyrir sig hefði borið. Undireins og dagsett var orðið á gamlárskvöld sagði hann að huldufólk hefði farið að tínast til sín og bjóða sér gull og silfur, góð klæði og dýrustu rétti; hefði hann getað staðið það allt af sér lengi vel og þagað hvað sem í boði hefði verið. Hefðu svo hinir fyrstu farið burtu, en aðrir komið og farið allt á sömu leið og skilið það eftir hjá sér allir sem þeir hefðu haft á boðstólum við sig. Þetta hafði gengið alla nóttina fram undir dag. Þá kom seinast til hans kona með heitt flot í ausu, en sumir segja ket og flot; en Jóni þótti heitt flot allra mata bezt. Sagði hann að sér hefði þá orðið það að líta út af og segja: „Sjaldan hef ég flotinu neitað.“[1] Missti hann við það allra gersemanna og kræsinganna sem honum voru áður boðnar og hjá honum lágu. Eftir það stóð hann upp og rann þá dagur. Upp frá þeim tíma varð hann ráðlaus og rænulítill, en þó hafði hann þá gáfu síðan að hann gat sagt fyrir óorðna hluti með því að hann lægi áður úti heilar nætur og er þess getið að hann hafi helzt valið til þess jólatímann, t. d. jólanótt, nýjársnótt, þrettándanótt, og þó einstöku sinnum miðsvetrarnótt og Jónsmessunótt.

Jón þessi var síðan kallaður krukk af krossgötunum og er hann alkunnur á Íslandi með því nafni og af spáfararsögum þeim sem af honum ganga bæði í Krukkspá[2] og í munnmælum. Til sýnis set ég hér að endingu fáein dæmi af spádómum Jóns sem í munnmælum ganga:

„Mönnum verður alltaf að fara aftur með vöxt og krafta svo fífuáttungurinn verður að lokum átta manna tak.“

„Ísland eyðist af langviðrum og lagaleysi.“[3]

„Vatnsdalur (á Norðurlandi) eyðist austanvert af skriðum, vestanvert af vatnaflóði.“

„Suðurland mun sökkva, en Norðurland rísa æ hærra úr sjó.“

Þar sem Jón talar um biskupana á Íslandi segja menn hann telji seinast Finn nauma, Hannes hvíta og Geir góða; eftir Geir góða segir hann að verði nokkrir pokabiskupar á Íslandi.

Það er enn haft eftir Jóni að hamarinn sem skútir yfir bæinn Elliða í Staðarsveit og stórir hraunklettar hafa hrunið úr sem liggja umhverfis bæinn eigi alveg að falla yfir hann þegar sá bóndi býr á Elliða sem á sjö syni og þeir halda þar allir í einu brúðkaup sín til sjö systra. Sagt er og að það standi í Krukkspá að dómkirkjan í Reykjavík eigi að sökkva þegar þar standi níu prestar skrýddir fyrir altarinu í einu og hinn 10. biskupinn. Ekki rættist þó spá þessi 1849, 12. dag ágústmán., þegar Helgi biskup Guðmundsson vígði þar sjö presta og stóðu þá alls níu prestar fyrir altarinu með vígsluvottunum auk biskupsins. En eftir því þóttust menn hafa tekið að færra var þá af öðru fólki í kirkju en venja var til við svo hátíðleg tækifæri og ætla menn að því hafi valdið hjátrú þessi, og víst er um það að nokkrir fávitrir menn töldu það ofdirfsku af þeim sem ekki létu letjast frá kirkjuferð í það sinn.

  1. Sjá Krossgötur.
  2. Það er bæði sögn og sannindi að Krukkspá sé til og eru þar á spádómar og spáfarir ekki fáar; þó ætla eg að menn kunni nokkrar sem þar standa ekki og séu miklu seinna tilbúnar. Ég hef séð brot úr Krukkspá, eða þó heldur slitur af henni, frá árinu 1514 eða jafnvel 1508 til 1523 í þremur handritum og er það nærri furða hvað þeim ber saman. Þann tíma allan hefur Jón verið í Skaftafellssýslu og legið þar úti fyrrnefndar nætur á ýmsum stöðum, t. d. hjá Kirkjubæ, Höfðabrekku og víðar, og spáð þá helzt hverjir biskupar verði og hverjar landplágur og landauðnir gangi yfir Suðurland, en þó einkum í Skaftafellssýslu og á Vestmannaeyjum, bæði af eldgangi og sandburði úr eldfjöllum, af jökulhlaupum, af sjávar- og vatnaágangi og fyrir ránskap Tyrkja. En við það huggar Jón sig þó jafnan að „hann verði þá kominn í frið og sælu hjá Maríu sinni guðs móður“.
  3. Þessa málsgrein hafa aðrir eftir Njáli.