Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón treður braut

Úr Wikiheimild

Eitt sinn ferðaðist Jón til Eskifjarðar í kaupstað. Fór þangað einnig um þær sömu mundir fjöldi manna ofan úr Fljótsdalshéraði. Gjörði þá illviðri og stórsnjóa svo menn tepptust nær hálfan mánuð í kaupstaðnum.

Jón spyr eitt sinn hvort menn vili víkja sér einhverju góðu ef hann með einhverjum ráðum fengi komið þeim yfir Eskifjarðarheiði, og var honum heitið því ef vel tækist til. Jón bað þá ei forvitnast neitt um háttsemi sína, en sagði þeim ef þeir kynnu einhvern tíma að finna óvæntan feril mundi þeim óhætt að fara eftir honum.

Eina nótt hvarf Jón í burt; gjörði þar eftir bjart veður og fóru menn að búa sig á stað, en ekki fundu þeir Jón. Hittu þeir nú á sleðabraut mikla og kenndu þeir að hún var eftir Jón. Lögðu ferðamennirnir svo upp til Eskifjarðarheiðar fyrnefnda braut og var haldið eftir henni, en hvergi varð vart við Jón sjálfan, þar til menn komu í svonefnda Eskifjarðarurð, sjá þeir hvar Jón fer á sleða út Tungudal og sýndust tólf menn ganga fyrir sleðanum. Er það mælt að brautin væri í klyfberafjöl á hestunum að dýpt.

Jón hélt áfram leið sína og ofan til Reyðarfjarðardala og hinir mennirnir á eftir. Fór snjórinn þá minnkandi eftir því sem nær byggðinni færðist. Greiddist vel ferð þeirra og er það sögn manna að Jón fengi þenna greiða sinn vel borgaðan.