Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón teymir hvalkálf

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón teymir hvalkálf

Jón Þórðarson hét maður; hann bjó forðum á Dalhúsum í Eiðaþinghá. Sagður var hann fjölkunnugur hvað ei mun hafa verið tilhæfulaust. Hann átti jafnan við mjög bágar kringumstæður að búa.

Eitt sinn fór hann ofan í Mjóafjörð og gisti þá hjá bónda einum sem bjó í Firði. Morguninn næsta óskaði Jón að mega róa með bónda um daginn og gaf bóndi honum leyfi til þess. Öfluðu þeir níu fiska um daginn. Hrækti Jón í kjaft þeim seinasta og sagði um leið að ei mundu fleiri fiskar vera þar nálægt, hvað og sannaðist. Beiddi hann bónda að gefa sér fiskana, og það gjörði bóndi.

Um kvöldið þá þeir voru komnir heim beiddist Jón að mega eiga það sem ræki á fjöruna um nóttina; gaf bóndi honum það eftir og kvað það mundi ekki verða mikið. Þegar menn voru háttaðir hafði Jón sig í burt af bænum og á fjöru og fann hvalkálf nýrekinn. Svein einn hafði Jón til fylgdar; sagði hann honum að ganga fyrir hvalnum og teyma hann, en varast að líta aftur. Sveinninn gjörði sem honum var boðið og fór á stað með hvalkálfinn, en þegar þeir komu að hól nokkrum utan til í Reyðarfjarðardölum varð sveininum það á að líta til baka. Sá hann þá að Jón gekk berhöfðaður á eftir hvalinn og hafði lítið kver í hendi. Líkaði Jóni mjög illa það sem sveinninn leit aftur, því við það stóð hvalurinn fastur. Heitir þar síðan Kálfshóll og er hann eigi mjög langt frá Dalhúsum þar sem Jón átti heima.