Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kálfshóll

Úr Wikiheimild

Jón Þórðarson grái fór eitt sinn frá Dalhúsum ofan í Mjóafjörð og hafði með sér smalapilt sinn. Er ekki getið ferða þeirra fyrr en þeir koma ofan í sveitina og út með Firði og komu ekki að bæjum. Seiddi Jón þar í einhverjum stað hvalkálf á land og lagði við hann band og segir við drenginn: „Þú skalt nú teyma kálfinn, en ég rek á eftir, en það skaltu varast að líta nokkurn tíma aftur eða vera að biðja fyrir þér, því þess er ekki þörf og skaltu gjöld fyrir taka ef út af þessu bregður.“ Drengur lofar að uppfylla þessar kvaðir að því leyti sér sé mögulegt.

Fara þeir svo af stað og upp Mjóafjarðarheiði og út alla Eyvindarárdali. Þótti dreng ærið skurk og aðgangur að heyra fyrir aftan sig og fór það alltaf vaxandi; en þegar kom út hjá þar sem Kálfshólsbærinn er nú og hjá höfða sem nú er kallaður Háhöfði þá var upp mýrarhall að fara. Þótti dreng svo fram úr keyra öllum ósköpum að hann leit aftur og sagði: „Guð hjálpi mér, hvaða ósköp eru þetta!“ En þá brá svo við að kálfurinn sundraðist allur víðs vegar. Reiddist Jón við drenginn og hélt við að hann mundi berja hann til meiðsla. En beinin úr hvalkálfinum gróf hann þar í mýrinni. Höfðinn tók nafn, segir sagan, af viðburði þessum og var nefndur Kálfshóll og bærinn þar við kenndur. En nú hefur höfðinn hið fyrrgreinda nafn. – Endir.