Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kálfur deyr

Úr Wikiheimild

Þegar Kálfur Árnason var orðinn fjörgamall lagðist hann mjög veikur og vissi hann að sú veiki mundi leiða sig til bana. Hann skipar þá öllu heimafólki sínu að fara burtu af bænum og læsa herbergi því er hann lá í, en láta samt lykilinn standa í skránni. Hann segir þeim að koma aftur eftir vissan tíma og þá skuli það ekkert kæra sig um þó ýmislegt sé hrært úr stað og brotið í bænum. En ef allt standi í sömu skorðum og áður inn í herbergi því er hann liggi inn í þá skuli grafa sig í kirkjugarði með öllum ceremoníum, en sé einhverju raskað eða brotið inn í herbergi sínu þá skuli þeir dysja sig einhverstaðar eins og aðra skepnu.

Árni hét fóstursonur Kálfs sem unni Kálfi mikið. Hann vildi ekki fara í burtu af bænum og leyndist því fyrir ofan húsagarðinn nokkra stund. Eftir nokkra stund sér Árni hvar kölski kemur og gengur hann í kringum allan húsagarðinn og seinast fer hann fram á hlaðið og er lengi að ólmast þar og seinast fer kölski inn í bæ og ólmast þar lengi.

Nokkru eftir læðist Árni inn í bæ og lýkur upp hurðinni að herbergi því er Kálfur lá inn í, og var Kálfur þá dauður, en allt var með sömu ummerkjum inn í herbergi hans og áður var.

Eftir þetta verður ekki vart við kölska. Kálfur Árnason var því grafinn í kirkjugarði með öllum ceremoníum.