Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kálfur sendir kölska eftir presti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kálfur sendir kölska eftir presti

Einu sinni varð Kálfur Árnason veikur og lá þungt haldinn. Þá kemur kölski til hans þar sem hann lá og segist ætla að verða við þegar hann deyi því hann eigi hann þegar hann deyi. Kálfur segist ekki muni deyja í þetta skipti, en biður samt kölska að koma með þann prest til að þjónusta sig sem sé ekki ágjarn og segir að kölski megi vera nokkuð langa stund að leita hann uppi því hann muni liggja lengi. Kölski verður hljóður við þetta og heldur að það muni ekki verða svo gott að finna þann mann. Kálfur segir ef hann geti ekki komið með þennan prest þá fái hann sig ekki og þá séu upphafin kaup þeirra.

Kölski fer þá á stað og er lengi að leita og getur engan fundið sem sé óágjarn. Eftir langan tíma kemur hann samt með einn prest til Kálfs Árnasonar og segist kölski hafa fundið þennan prest seinast lengst út í löndum, og segir hann þó að hann sé ekki frí fyrir ágirnd, en einn prestur hefði verið samt út í Þýzkalandi sem sé alveg óágjarn, en hann hafi ekki komizt að honum því tindrandi eldur hafi verið alltaf allt í kringum hann. Kálfur segist ekki vilja þennan prest sem hann kom með fyrst hann sé ekki alveg laus við ágirnd og sé því kölski af kaupunum, og verður kölski að fara í burtu að svo búnu.