Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kálfur leikur á kölska

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kálfur leikur á kölska

Þegar Kálfur Árnason var í Svartaskóla hafði hann gefið sig kölska. En þegar hann var kominn aftur til Íslands þá vildi hann fyrir allan mun losast við þetta loforð til kölska, en vissi ekki hvernig hann átti að fara að því. En hann tekur þá það ráð að hann fer á fund Sæmundar fróða og biður hann um ráðleggingu í þessu efni. Hann ráðleggur honum þá að hann skuli ala tarfkálf er hann skuli nefna Árna og síðan skuli hann ala kálf undan þessu nauti og kalla hann Kálf – og það sé þá Kálfur Árnason.

Kálfur gjörir þetta. En nokkru eftir kemur kölski og segist vilja fá Kálf Árnason. Kálfur tekur þá kálfinn sem hann hafði alið og kastar í kölska og segir þarna sé Kálfur Árnason, og mátti kölski láta sér það vel líka og hafði hann ekki meira af Kálfi Árnasyni, og dó hann í góðri elli.