Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kölski ber vatn í hripum

Úr Wikiheimild

Svo bar til einn vetur að maður kom til fjósakonu Sæmundar fróða og bauð henni að sækja allt vatn fyrir hana um veturinn, bera út mykjuna og fleira þess konar ef hún vildi gefa sér það í staðinn sem hún bæri undir svuntu sinni. Fjósakonu þótti þetta boð gott því hún hugsaði ekki eftir því að hún var þunguð og mundi ekki til að hún hefði neitt fémætt undir svuntunni. Hún gekk því að kaupunum.

En þegar út á leið veturinn smálukust upp augun á griðkunni og þóttist hún þá sjá hvar hún var að komin. Varð hún þá þögul og fáskiptin og eins og utan við sig. Sæmundur tók eftir því, tók hana tali og gekk á hana um orsökina til fálætis þess sem á hana væri komið. Í fyrstunni vildi hún ekki segja honum það, en að síðustu komst hún ekki undan og sagði frá öllu greinilega og rétt um kaup sitt við manninn. Sæmundur lét hana þá fyrst vita að sér hefði raunar ekki verið dulið ráðlag hennar enda þó hann hefði ekki skipt sér af því fyrri. „Vertu ókvíðin,“ segir Sæmundur, „ég skal kenna þér ráð til þess að láta kölska verða af kaupinu. Þú skalt á morgun biðja hann að sækja vatnið í hripum og ganga hjá sáluhliði, annars sé hann af kaupinu.“

Fjósakonan gjörir nú allt eins og Sæmundur hafði lagt fyrir hana. Kölski fer nú með hripin og rambar eftir vatninu. En þegar hann kemur að sáluhliði hringir Sæmundur klukkunum og fór þá allt vatnið niður úr hripunum. Kölski reyndi til þrisvar sinnum, en það fór alltaf á sömu leið. Snaraði hann þá frá sér hripunum í bræði og hvarf burtu.

Fjósakonan ól síðan barn sitt og vitjaði kölski þess aldrei. Þar á móti hugsaði hann Sæmundi presti gott til glóðarinnar því hann þóttist eiga honum fyrir grátt að gjalda.