Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Púkinn og fjósamaðurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Púkinn og fjósamaðurinn

Einu sinni hélt Sæmundur fróði fjósamann sem honum þótti vera um of blótsamur og fann hann oft að því við hann. Sagði hann fjósamanni að kölski hefði blótsyrði og illan munnsöfnuð mannanna handa sér og púkum sínum til viðurværis. „Þá skyldi ég aldrei tala neitt ljótt,“ segir fjósamaður, „ef ég vissi að kölski missti við það viðurværi sitt.“ „Ég skal nú bráðum vita hvort þér er það alvara eða ekki,“ segir Sæmundur. Lætur hann þá púka einn í fjósið. Fjósamanni var illa við þenna gest því púkinn gjörði honum allt til meins og skapraunar og átti þá fjósamaður bágt með að stilla sig um blótsyrði. Þó leið svo nokkur tími að honum tókst það vel og sá hann þá að púkinn horaðist með hverju dægri. Þótti fjósamanni harðla vænt um, þegar hann sá það, og blótaði nú aldrei. Einn morgun þegar hann kom út í fjósið sér hann að allt er brotið og bramlað og kýrnar allar bundnar saman á hölunum, en þær voru margar. Snýst þá fjósamaður að púkanum sem lá í vesöld og volæði á básnum sínum og hellir yfir hann bræði sinni með óttalegum illyrðum og hroðalegu blóti. En sér til angurs og skapraunar sá hann nú að púkinn lifnaði við og varð allt í einu svo feitur og pattaralegur að við sjálft lá að hann mundi hlaupa í spik. Stillti hann sig þá fjósamaðurinn og hætti að blóta. Sá hann nú, að Sæmundur prestur hafði satt að mæla, og hætti að blóta og hefur aldrei talað ljótt orð síðan. Enda er sá púkinn fyrir löngu úr sögunni, sem átti að lifa á vondum munnsöfnuði hans. – Betur að þú og ég gætum breytt eftir dæmi fjósamannsins.