Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kölski sækir skreið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kölski sækir skreið

Hálfdán var prestur á Þönglabakka. Hann lærði í Svartaskóla. Einu sinni var það að Hálfdán vantaði skreið í bú sitt og samdi hann við kölska um að hann sækti fyrir sig eina vætt fiska til Grímseyjar; það var nótt á útmánuðum. Fekk prestur kölska trogbera sinn og hann gisinn til fararinnar. Þó var til skilið í kaupum þeirra að ekki blotnaði af skreiðinni. Þegar nóttu hallaði sendi prestur, því hann vakti í rúmi sínu, griðkonu til dyra og bað hana sjá til hafs hvert hún yrði nokkurs vís. Hún gekk út og horfði til hafs og sá ekkert, kom og hitti prestinn og segir eins og var. Að lítilli stundu liðinni sendir prestur hana aftur í sama erindi og fór það sem fyrri. Í þriðja sinni sendi prestur hana; var það við afturelding. Þegar hún kom inn segir hún presti að hún hafi séð lítinn depil dökkan við hafsbrún. Þá settist prestur framan á rekkjustokk og kippti í snarræði skóm á fætur sér og gekk út. Þegar prestur kom út fyrir dyr var kölski kominn á seinustu báru og var nærri logn á sjóinn. En allt í einu laust upp ógnabrimi og rauk allan sjó, og hleypti kölski í land. Prestur gekk til fundar við hann og leit á skreiðina. Höfðu þá vöknað í lendingunni ruður og sporðar. Hjó prestur þá af uggum og sporðum það sem vöknað hafði og kastaði að kölska og kvað hann ekki annað hafa mundi fyrir ómak sitt er ekki kom alþurr allur fiskurinn. Heitir síðan skollablaðka hið þynnsta af sporðinum og uggunum á fiskinum.