Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kerlingin á Tjörnum
Þegar séra Hálfdan var í Felli bjó á Tjörnum kelling ein. Þau áttu oft glettur saman. Eitt sinn var það að séra Hálfdan var á sjó í kuldaveðri; rauk þá vel á Tjörnum. Segir þá einn hásetinn: „Gaman væri nú að eiga heitan blóðmör.“ – „Atli þið ætuð hann ef ég drægi hann hérna upp?“ segir prestur. Það halda þeir. „Þið verðið þá að éta allir og enginn að biðja guð að blessa sig,“ segir prestur. Að þessum kosti ganga þeir. Nú rennir prestur og kemur upp fullt blóðmörstrog. Nú fara þeir að éta nema einn gat ekki étið, en þegar þeir eru nýfarnir að éta stökkur stóreflis flyðra út úr skutnum hjá þeim. Þá segir prestur: „Já, alténd vill kellingin mín hafa nokkuð fyrir snúð sinn.“ Sagan segir að sá sem ekki gat étið blóðmörinn hafi dáið.
Kellingin á Tjörnurn var velmegandi og byggði nýjan bæ á Tjörnum. Prestur hafði einhver umráð yfir jörðunni og byggði henni út litlu seinna. Hún vildi þá að minnsta kosti fá einhverja þóknun fyrir nýja bæinn, en þess var eigi kostur. Tók hún þá sokkaband sitt og hnýtti í bæjarkenginn og dró bæinn með sér spottakorn niður fyrir túnið á Tjörnum og settist þar að í honum. Er þar enn byggður bær og heitir Glæsibær.