Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kvonfang Þorleifs

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Þegar hann var á yngri árum sigldi hann til Danmerkur til lærdóms og frama. Þá bjó að Nautabúi í Skagafirði Jón Þorsteinsson (bróðir Einars biskups) og Þorbjörg dóttir Ara prófasts Guðmundssonar að Mælifelli, og áttu dóttur er Ingibjörg hét. Þau unnu hvurt öðru Þorleifur og hún, og trúlofuðust þau sín á milli áður en hann fór utan, en Þorbjörg stóð mjög á móti því og hafði ásett að gifta hana öðrum manni.

Var það um haust eitt að Ingibjörg vissi að hún mundi verða að eiga þann mann um vorið ef að Þorleifur yrði ekki kominn og féll henni það sárt og vildi fyrir hvurn mun geta komið bréfi til Þorleifs með haustskipum. Grunaði móður hennar það og hafði svo sterkt varðhald á Ingibjörgu að hún fékk aldrei færi á að skrifa bréfið. Leið svo fram eftir haustinu. Lítur helzt út að þær hafi þá verið til heimilis á kirkjustað því sagan segir: Einn helgan dag um haustið var margt fólk til altaris og svo þar á meðal þær mæðgur Ingibjörg og Þorbjörg. Það vissi Ingibjörg að móðir sín mundi ekki verða í fyrsta hring þegar farið var að útdeila og því fór hún í hann, en kelling fór í næsta hring. Snarast þá Ingibjörg út úr kirkjunni og inn í bæ og inn í stofu og læsir að sér; tekur blek og penna og pappír og fer að skrifa bréf til Þorleifs. En þegar hún er nýsetzt niður kemur móðir hennar og klappar upp á. Ingibjörg fleygði öllum skriffærunum upp undir rúm er var í stofunni og sló með hendinni mikið högg á nasir sér og féll blóðið um hana alla; en hún tók klút í hönd sér og hélt um nefið og lauk svo upp fyrir móður sinni, en hún var heldur fasmikil og spyr því hún hafi farið svo snögglega úr kirkjunni. Ingibjörg segir: „Eins og þér getið séð sjálfar fékk ég svo miklar blóðnasir að ég get ekki setið í kirkjunni.“ Kelling tók þetta trúanlegt og fór út aftur, en Ingibjörg hélt áfram með bréfið til Þorleifs í góðu næði. Sagði hún honum í því hvar nú var komið og kvað svo að orði að ef hann hugsaði til að fá sig til konu yrði hann að koma með fyrstu vorskipum. Gat hún komið bréfinu með skipi og komst það þannig til Þorleifs. Þókti honum ekki ráðlegt að leggja undir höfuð að gjöra eins og Ingibjörg hafði fyrir mælt og fékk sér far með skipi því er fyrst fór til Íslands um vorið, en það átti að fara á Djúpavog við Berufjörð. Urðu þeir vel reiðfara og þegar Þorleifur kom á land fer hann að spyrjast fyrir hvurt hann mundi ekki geta fengið keyptan einn hest góðan til ferðarinnar. Var honum þá sagt að á Teigarhorni, sem er kot eitt skammt frá Djúpavog, byggi kelling gömul og hún ætti hvítt hross er hún kallaði Álft. Væri svo að hann gæti fengið hana þyrfti hann ekki að hugsa til að fá traustari hest þar um sveitir. Þorleifur fer nú til kellingar og falar að henni hrossið og kvað sér liggja mikið á að komast fljótt áfram, en eiga alllangan veg fyrir höndum. Hún sagðist ekki hafa ætlað að lóga henni Álft, en þar eð honum lægi mikið á mundi ekki gott að neita bón hans. Fer kelling inn í bæ og kemur aftur út með kapalinn. Hún var mikil vexti og sílspikuð og leizt Þorleifi það satt að færri hestar mundi jafngjörvuglegir. Bregður kelling sér inn aftur og kemur með mjólkurskjólu og smjörsköku og rétti að Álft, en hún tók vel við hvurtveggja. Kelling segir þá við Þorleif: „Þar er nú hrossið og vona ég að hún sé mannbær og ekki hugði ég að hún mundi þróttlaus verða; óska ég að þú njótir hennar vel og lengi.“ Þorleifur kvað henni vel fara og þakkaði henni með mörgum fögrum orðum, en ekki er þess getið hvurt hann borgaði Álft í það sinn. Kveður hann síðan kellingu og heldur sem leiðir liggja til Norðurlands. Hvataði hann sem mest ferðinni og fór nálega nótt sem dag þar til hann kom í Skagafjörð. Er honum sagt að þá sé komið að þeim degi að drekka eigi kaupöl Ingibjargar og manns þess er ætlaði að fá hennar og muni það fram fara á Hólum. Þorleifur ríður þangað og hitti svo á að fólk var að drekka kaupölið; gekk hann í stofuna þar er það fram fór og að manninum þar sem hann sat við hlið Ingibjargar, tók í öxl honum og kippti upp af bekknum og settist þar niður og sagði: „Þetta er mitt sæti en ekki þitt, kall minn!“ – Varð það svo úr að Þorleifur fékk Ingibjörgu. En maður sá er ætlaði að eiga hana fékk til skólapilt þann er Loftur hét og kallaður Galdra-Loftur að fyrirkoma Þorleifi og sýndi Loftur honum ýmsar glettur, en ekki sakaði Þorleif það að neinu.