Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorleifur og Hólabiskup

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þorleifur og Hólabiskup

Þegar Þorleifur var búinn að fá Ingibjargar varð hann dómkirkjuprestur á Hólum. Þar var þá Steinn Jónsson biskup. Urðu stundum ýmsar greinir með honum og séra Þorleifi, því hann fór ekki að því þó að biskup ætti í hlut ef að svo bar undir, en græskulaust var það af beggja hálfu. – Einu sinni vóru þeir séra Þorleifur og biskup að ganga um engjar þar sem staðarfólkið var búið að slá og raka. Þá segir biskup: „Illa rakað og illa slegið.“ Þorleifur tók undir og sagði: „Illa launað og illa þegið.“ Ekki töluðu þeir þar fleira um.

Það var einn sunnudag þegar síra Þorleifur var að útdeila fólkinu altarissakramenti, en biskup sat þar hið næsta, að hann missti eina oflátu, en var þá svo snar að hann kom lófanum undir áður en hún kom niður. En eftir messu um daginn fer biskup að tala um við hann að honum hafi ætlað að vilja ljótt slys til er hann felldi niður oflátuna. Þorleifur svaraði: „Þá urðu nú ekki lítil í þér augun Steinn.“

Það var venja að þegar séra Þorleifur messaði spurði biskup skólapilta úr ræðunni. Einn dag þegar messa átti biðja skólapiltar séra Þorleif að hafa einhvur ráð með að þeir verði ekki spurðir úr ræðunni þann dag. Hann var þeim ætíð góður og tók þessu vel, en segist ekki vita hvurt að hann geti komið því til leiðar. – Síðan er farið í kirkju og fór allt vanalega fram þar til er prestur kemur upp á stólinn, þá bregður hann nokkuð vana sínum og hefur ýmist svo lágt að enginn maður heyrði, en ýmist svo hátt að glumdi undir í allri kirkjunni, og þennan framburð hafði hann allt til enda ræðunnar. – Að aflokinni embættisgjörð ætlar biskup að vana að fara að spyrja pilta, en þeir afsaka sig allir í einu hljóði með því að þeir hafi ekkert skilið af því er prestur framflutti á stólnum. Biskup segir: „Það er ekki von um ykkur frekar en mig að þið skilduð nokkuð.“ Þar næst víkur hann sér að presti og segir: „Hafið þér bölvaða skömmu fyrir ræðuna í dag, séra Þorleifur.“ En hann lét ekki sitt minna og sagði: „Hafið þér svo þegið, helvítis greyið.“ Er ekki getið fleiri orða þeirra það sinn, en ærið var um af beggja hendi.