Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Músum eytt

Úr Wikiheimild

Eitt sinn bar svo til að Jón kom að bæ einum og var þar nótt. Var á bæ þessum mikill grúi af músum. Beiddi bóndi Jón að gjöra tilraun nokkra að eyða þeim og hét Jón góðu um það. Bóndi bauðst til að vísa honum hvar þær héldu sig helzt, en Jón kvaðst eigi síður mundi vita það en hann, fann síðan músaholu eina og þuldi yfir henni fræði sín þar til að út úr henni komu fimmtíu og sjö mýs. Sagði Jón þá sér þækti kynlegt að tvær mýs vöntuðu, þuldi síðan nokkuð lengur yfir holunni og komu þá tvær mýs út úr henni; kvað hann þaðan mundi ei lengur músa von.