Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Missætti Jóns á Hellu og Jóns Illugasonar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Missætti Jóns á Hellu og Jóns Illugasonar

Þá bjó að Skógum á Þelamörk sá maður er Jón hét og var Illugason; hann var maður fátækur og fáskiptinn, en hélt fast hlut sínum ef á hann var leitað; héldu menn hann kynni og nokkuð fyrir sér eins og þá var títt um alla þá er ekki létu hlut sinn fyrir yfirgangsmönnum. Það var einhverju sinni að þeir nafnar, Jón frá Hellu og Jón Illugason, hittust í kaupstað á Akureyri. Þeim varð sundurorða um eitthvað er þeirra hafði á milli farið og sló að lyktum í heitingar fyrir Jóni á Hellu; kvaðst hann mundi finna nafna sinn áður langt liði. En hinn kvaðst mundi óhræddur þora að sjá hann hvar sem þeir fyndust. Lyktaði svo talið og fór hver heim til sín.