Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Nám Sæmundar

Úr Wikiheimild

Það var ekki allra að vita tíma og stundir eins og sagan sagði um Sæmund fróða því hann hafði verið þrjú ár í svonefndum Svartaskóla sem hafði þá yfirskrift á inngangsdyrum: „Inn máttu ganga og allt máttu læra, en töpuð er sál þín ef þú deyrð inni.“ Með honum áttu þeir Ari fróði og Kálfur Árnason að hafa verið í Svartaskóla. En af því ekki var hægt að komast út nema á sömu mínútu og inn var farið þá urðu þeir óvissir um mínútutímann; en í þessum vandræðum lagði Sæmundur lausa kápu yfir sig og hratt hinum áfram. En er hann slapp út var hrifið í kápuna so hún varð eftir, en [hann] slapp. Þessi Svartiskóli átti að vera í Þýzkalandi þar sem aldrei kæmi birta inn. Af þessum Svartaskólafræðum átti Sæmundur [að] geta haft djöfla sér til þénust[u] með því móti að gefa þeim sig, en sveik þá þó jafnan um verkalaunin, því þegar hann falaði Odda eftir að annar var búinn að fá veitt brauðið fékk Sæmundur það ef hann kæmist heim fyrri en hinn. Átti hann þá [að] hafa gjört samning [við] Satan sem varð að sel sem Sæmundur reið yfir hafið og átti að synda svo hátt [að] Sæmundur vöknaði ekki í fætur. En þegar að landi var kominn lamdi Sæmundur Davíðssaltara í haus selsins og sagði: „Hækkaðu þig, helvízkur!“ Við það sökk Satan og tapaði kaupinu því Sæmundur vöknaði. Þó er ekki að heyra að fjandi [hafi] fyrzt við þetta því fjósahirðir átti hann að hafa verið hjá Sæmundi þegar hann bar fjóshauginn fyrir kirkjudyrnar. En fyrir páskana skipaði Sæmundur honum að sleikja upp hauginn og flytja út á tún sem hinn gjörði svo vandlega að lágin eftir tunguna á að sjást ennþá í hellu frammi fyrir kirkjudyrum í Odda.