Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skollagróf (2)

Úr Wikiheimild

Það er alkunnugt að Sæmundur fróði var hinn mesti fjölkynngismaður og það svo að hann hafði kölska og skyldulið hans til ýmislegra bústarfa er hann með þurfti, en lék hann ávallt illa út. Einu sinni þurfti Sæmundur skóg til kola og eldneytis. Kallar hann þá á kölska og skipar honum að fara inn á Búrfell sem er á framanverðum Gnúpverjaafrétti og draga hann fram að Odda. „Hvar eru þá reipin?“ segir kölski. „Taktu murnablaðaleggi,“ segir Sæmundur, „og dragðu í þeim. Máttu eiga af mér tá og fingur ef heim kemur án þess að þeir slitni.“ Kölski fór á stað og tíndi ærnar hrúgur af murnaleggjum og hnýtti saman í reipi, lagði á ærið stóra drögu og teymdi fram eftir að Odda. Heitir það síðan Skollagróf er kölski dró viðinn eftir. Liggur hún eftir endilöngu Landi og er ærið breið sumstaðar og misdjúp.

Því eru svo margir hnútar á murnaleggjunum að reipin slitnuðu svo oft hjá kölska. Heita þeir síðan skollareipi.