Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sæmundur og kölski yrkjast á
Útlit
Eftir gömlum frásögnum áttust þeir oft margt saman Sæmundur fróði og kölski. Var það eitt með öðru að Sæmundur sagði hann skyldi aldrei geta hitt sig í rúmi óklæddan. En einu sinni bar so við að kölski kemur á gluggann við rúm Sæmundar og er hann þá eigi kominn í fötin. Þá segir
| Sæmundur: | En kölski svarar: |
|---|---|
| „Hvað fréttist?“ | „Illt eitt.“ |
| „Er hríð?“ | „Já, stríð.“ |
| „Hvernin?“ | „Hvefsin.“ |
| „Hvaðan?“ | „Norðan.“ |
| „Er frost?“ | „Allgeyst.“ |
| „Er snær?“ | „Frábær.“ |
| „Er myrkt?“ | „Sótsvart.“ |
| „Sést ei?“ | „Ónei.“ |
Og þegar þeir voru búnir að talast þetta við var Sæmundur alklæddur og fór á fund kölska.