Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kirkjugarðsleg Sæmundar

Úr Wikiheimild

Sæmundur fróði lagði svo fyrir þegar hann lá banaleguna að ef enginn fyrirburður yrði þegar lík hans væri borið út úr bænum þá skyldi ekki grafa hann í kirkjugarði, heldur dysja hann einhverstaðar annarstaðar. En þegar lík hans var borið út úr bænum út í kirkju þá kom stórrigning allt í einu úr heiðskíru lofti og sólskini, og var því lík hans grafið í kirkjugarði.

Svo segja aðrar sögur að Sæmundur sé grafinn í norðvestur frá kirkjudyrum í Odda utarlega. Steinn er yfir leiðinu af óhöggnu grjóti, nú mjög jarðsiginn. Á honum hefur sú átrú verið að menn hafa vakað þar á náttarþeli og gengið burtu horfnir krankleika, einkum þeir sem haft hafa heimakomu.