Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sæmundur á banasænginni

Úr Wikiheimild

Sæmundur hafði tekið meybarn til fósturs af fátækum manni; honum þótti ósköp vænt um hana og unni henni svo mikið að hann mátti ekki af henni sjá né við hana skilja. Þegar hann lagðist banaleguna lét hann hana liggja til fóta í rúminu hjá sér því það var eins og hann tryði henni bezt til að vera vitni til dauða síns. Meðan hann lá veikur hafði hann grun á því að hann mundi ekki liggja fleiri legur, og um leið fann hún það á honum að hann væri nokkuð vokins um hvort hann mundi eiga heimvon eftir dauðann til himnasælu eða í hinn staðinn.

Kvöldinu fyrir dauða sinn bað hann fósturdóttur sína að hafa andvara á sér um nóttina og muna sig um það að sofna ekki því sér segði svo hugur um að hann mundi deyja þá nótt, en ef svo yrði mundi mega sjá nokkrar jarteiknir til þess hvað um sig yrði annars heims, og bað hana því að vaka og taka vel eftir öllu svo að hún gæti sagt vandamönnum hans með fullum sanni hvorn samastaðinn hann hreppti. Eftir þetta hættir hann talinu og leggst fyrir. En stúlkan vakir trúlega. Þegar fór að líða á nóttina sér hún að loftið sem þau voru í fylltist af púkum. Virtist henni sem þeir vildu ginna Sæmund með fortölum til einhvers ills, en réð það af orðum hans og yfirbragði að hann vildi þeim í engu sinna. Þegar púkunum dugði ekki þetta leituðust þeir við að fá Sæmund til ills með hótunum. En hann stóð þær allar eins karlmannlega af sér sem ginningar þeirra áður. Eftir þetta hurfu púkarnir; en óðar en þeir voru burtu fylltist loftið aftur af mývargi er ásótti Sæmund. Var þá svo af honum dregið að hann gat ekki varið sig eða bandað mýinu frá sér. En í því sem mýbitið sækir að honum sem óðast verður henni litið á að ljósglampi leið upp af vitum hans; þóttist hún þá skilja að það hefði verið sál hans er svifið hefði til sælli bústaða. Enda var þá allt mýbitið horfið og Sæmundur liðinn.