Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Nornin á Saxlandi
Sæmundur prestur fróði lofaði norn nokkri á Saxlandi eiginorði, en þá hann fór til Íslands og ílengdist þar sá hún sig af honum gabbaða að vera, hvar fyrir hún úrkula vonar orðin um hans afturkomu að nokkrum árum liðnum sendi honum gullroðinn kistil, þar með að hefna hans óhaldinyrða, með þeim fyrirmælum að enginn utan Sæmundur mætti kistlinum upp lúka. Skipverjar sem sendingu þessa höfðu innanborðs urðu öllum vonum framar hraðfara og létu í hafnir sunnanvert á Íslandi, hvaðan þeir strax sendu mann gagngjört til Odda með sagðan kistil. Sæmundur var staddur í kirkju þá maðurinn kom, og með því honum kom ei sendingin óvart tók hann manninum vinsamlega og bað hann leggja kistilinn sem hann meðferðis hefði upp á altarið, og svo gjörði sendimaður og þar lá kistillinn þá nótt. Næsta dag þar eftir reið Sæmundur með kistilinn undir hendi sér efst upp á Heklu og kastaði honum þar ofan í gjá nokkra, og þaðan tjáist að Heklueldur hafi sinn uppruna.