Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Oddur biskup Einarsson

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Oddur biskup Einarsson

Það er í frásögur fært af Jóni prófasti Halldórssyni í Hítardal að Oddur biskup hafi verið bæði getspakur og forspár um marga hluti sem síðar mun sagt verða þó hann léti lítið yfir því nema þegar svo bar undir að hann var ölglaður. En eins var því varið með hann og marga sem kallaðir eru forspáir að hann sá gegnum holt og hæðir.

Sami merkismaður hefur sagt frá sögu einni um það og er hún svo látandi: Sigfús, sonur séra Tumásar á Hálsi í Fnjóskadal er síðar varð prestur að Hofteigi í Jökuldal í Norður-Múlasýslu, var smásveinn Odds biskups á ungdómsárum sínum. Einhvern tíma nálægt fráfæru er frá því sagt að hann var einn hjá biskupi inni í biskupsbaðstofunni í Skálholti; sat biskup við borð og studdi hönd undir kinn þegjandi um stund, brosti og mælti síðan: „Fúsi, viltu ég segi þér hvað konuefni þitt er nú að gjöra?“ Sigfús sagði að óvíst væri hvort sér yrði konu auðið. Biskup sagði: „Víst liggur það fyrir þér að þú kvongist; get ég sagt þér hver hún er og hvað hún er nú að gjöra. Það er dóttir hans Eiríks í Bót, austur í Fljótsdalshéraði; hún er nú að reka unglömb á fjall, elta þau og hleypur nú hæverskulaust.“ Sigfús skrifaði hjá sér árið, daginn og stundina. Síðan kom það fram að hann varð prestur í Hofteigi og eignaðist Kristínu dóttur Eiríks í Bót svo það bar allt saman sem biskup sagði.