Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Eiríkur í Bót

Úr Wikiheimild

Eiríkur hét maður Hallsson; hann bjó í Bót í Hróarstungu. Faðir hans var Hallur prestur Högnason er þjónaði Kirkjubæ næst Ólafi prófasti Einarssyni, en móðir Eiríks var Sesselja Einardsóttir Sigurðssonar prófasts í Heydölum. Bróðir Eiríks var Guttormur er Tyrkir tóku.

Eiríkur var afarmenni að afli og atgjörvi, ófyrirlátsamur, meðallagi góðgjarn og svolalegur við drykk; því hann var drykkjumaður mikill. Hann fékk þeirrar konu er Guðríður hét, dóttir Guttorms á Brú, og átti við henni þrettán börn; tvær dætur, Kristín og Hróðný, eru nafnkenndastar. Kristín giftist Sigfúsi presti Tómassyni í Hofteigi eins og Oddur biskup sagði fyrir,[1] en Hróðnýjar fékk Ásmundur frá Straumi Ólafsson prests Guðmundarsonar skálds frá Sauðanesi.

Menn hafa í frásögnum hvörnig Eiríkur tók Ásmundi eitt sinn hann kom að Bót eftir að hann komst á hugi við Hróðnýju. Hann kom þar síðla dags; var Eiríkur léttur í máli við hann og bar ekkert til tíðinda. Svo um kvöldið var Ásmundi borinn matur og fylgt til rúms fyrir framan húsdyr Eiríks. En þegar allir vóru komnir í svefn fór Ásmundur á fætur og fór mjög hljóðlega, tíndi saman alla aska og diska er hann gat fundið og gekk frá þessu öllu milli fata í rúmi sínu, kvaddi svo stúlku sína og fór af stað. Þegar nokkuð var liðið á nótt vöknuðu menn við brauk mikið, en vissu ekki hvörju gegndi. Um morguninn þá bjart var orðið af degi spurði Eiríkur hvört Ásmundur væri vaknaður. Menn sögðu hann svæfi. Hann kvað bezt að lofa manninum að sofa. Það þótti mönnum kynlegt að um morguninn þá átti að fara að skammta fólkinu fannst hvörki askur né diskur, og eins hitt að Ásmundur skyldi ekki vakna, svo farið var að huga að í rúminu; þar vóru þá askar og diskar allir í molum. Grunaði menn þá hvör verk það mundi hafa unnið; því menn vissu að Eiríkur bar þungan hug til Ásmundar fyrir það að dóttir hans var farin að gildna undir beltið. Eftir þetta varð Hróðný léttari og fæddi piltbarn. Þegar Ásmundur frétti þetta út að Straumi þá sendi hann henni á sængina sauðarfall soðið og fjögra potta kút með brennivín sem hún skyldi gefa karli þegar hún stigi af sæng. Hún gjörði svo þetta; þá hafðist upp brún á Eiríki og sagði: „Gjörðu svo hálfu oftar, Hróka mín.“ Er ekki getið hann hafi sýnt Ásmundi glettingar eftir þetta. Varð Hróðný kona Ásmundar. Sonur þeirra var Ólafur prestur á Kirkjubæ, faðir Bjarnar í Böðvarsdal, föður Bjarnar, föður Guðnýjar, móður Magnúsar sem þar býr nú. Vóru þeir feðgar atgjörvismenn miklir og þóttu fyrirtaks-bændur að rausn og vænleik.

Eiríkur bjó síðast á Rangá. Þá hjarn var á vetrum reið hann á Héraðssanda og ók til sín trjám sem honum sýndist að fornspurðum eigendum og svaraði öfugum orðum ef að var fundið. Hann var refaveiðamaður mikill svo hann dró fyrir þá í kring Fljótsdalshérað, reið með dröguna inn með austurfjöllum og út norðan megin. Hann var skáldmæltur og kastaði fram stökum við tækifæri. Þessar hef ég heyrt:

Mjög er drukkinn mögur Halls,
maðurinn álna sauður.
Hvar mun vera klárinn karls,
kallaður Gamli-Rauður?
Ef ég gleymi og sé það satt
siðanna góðum fremdum,
þá skal bíta – og hafa við hratt –
höfuð af öllum skemmdum.
Geldur ekki grimmur her
gull né fé í skattinn;
hákarlinn má þéna þér;
þú ert eins og skrattinn.
Margir kenna mig við Hall
menn í þanka glaðir
þegar þeir segja: „Þar er hann karl
þrettán barna faðir.“
Guði sé lof, mig líður hann enn,
lifi ég á sjötugsaldri,
hér er kominn að hjala við menn,
hamurinn fylgir baldri.

Þorvaldur prestur Stefánsson kvað þetta eftir hann látinn:

Alvaldur Eirík hvíldi
af eldri mönnum heldri;
þann gildir gáfur falda,
en gjöldin loks margföldu
alda guðs hátíð heldur
með höldum þeim útvöldu.
Skáld þar gott við skildi;
skuld þá allir guldu.
Spáði með spökum óði,
spjaður af engum maður,
að ei elli næði
áður en gekk til náða.
Guð treysti góðum
og hæða vænti af hæðum,
háði herkinn stríðið
með heiður í Kristó deyði.
Tunga tregar drenginn,
tanginn Héraðs langur;
hans ungu börn í binginn
bangin sér niður stanga.
Kóngur alvaldra engla
angrið þeim bæti stranga.
Slyngvari’ við Fjölnirs fenginn
fangar ei maður Rangá.
  1. Sbr. Oddur biskup Einarsson