Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Rakstrarkonurnar

Úr Wikiheimild

Einu sinni voru konur tvær að raka ljá í Merkurengjum. Segir þá önnur þeirra: „Hvað ætla okkur yrði við ef hann Galdra-Tómas frá Söndum kæmi hingað til okkar?“ „Ég held að okkur yrði ekki mikið við,“ segir hin. Í þessum sömu svifum kemur Tómas utan frá Múla í erindum sínum innarlega yfir fljótið og taka þær eftir honum er hann er kominn nokkuð fram fyrir þær. Tekur sú þá stökk er um ræddi, eftir honum og kippir fötunum óhæversklega upp sér til léttis á hlaupunum. Hin tekur og viðbragð mikið og kallar eftir henni engu minna hlaupandi og biður hana ekki vera að heimsku þessari. Halda þær alltaf sömu hlaupum, en Tómas ríður þéttan á undan þangað til Tómas er kominn að ál þeim er rennur fyrir framan Fit. Þar snýr hann aftur hestinum; er stúlkan þar þá komin allt að hestinum ákaflega móð. Þá segir Tómas: „Þetta varð þér við er þú sást hann gamla Tómas á Söndum. Snúðu nú aftur; ekkert gengur á ljána meðan þú ert að elta mig.“