Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Stúlkurnar og kirkjufólkið

Úr Wikiheimild

Tómas gamli fór einu sinni til Dalskirkju – sem venja hans var. Meðal margra annara er við kirkjuna voru voru kvenmenn tveir, oflátar miklir, dætur manns þess er þá bjó á Seljalandi. Tómas gamli var enginn skartmaður – og að líkindum heldur fátækur. Spottuðu þær hann mikið, en hann lét sem hann sæi það hvorki né heyrði. Þær fóru frá kirkjunni strax eftir blessan, en Tómas fór ekki frá kirkjunni fyrr en að áliðnum degi. En er hann kom að Kattarnefi þar sem vegurinn er svo tæpur að varla er ríðandi, þar stóðu meyjarnar sín hvorumegin vegarins og héldu svo upp um sig fötunum að þær héldu í skyrtufaldana með tönnunum og höfðu staðið þar þannig á sig komnar meðan kirkjufólkið reið fram um. „Hvað eruð þið að gjöra hér stúlkuskepnur?“ segir Tómas, „voruð þið að bíða eftir mér?“ En er hann hafði þetta sagt slepptu þær tökum og vöknuðu sem af svefni. Þá segir hann: „Gjörið það ekki oftar, stúlkukindur, að hæða hann gamla Tómas á Söndum.“