Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sæmundur og kölski kveðast á

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sæmundur og kölski kveðast á

Einu sinni hafði Sæmundur prestur veðjað við kölska um það að hann skyldi aldrei koma með þann fyrri hluta úr vísu, hvorki á latínu né íslenzku, sem hann gæti ekki sett botninn í. Sæmundur setti sjálfan sig í veð fyrir þessu, og með því að kölska lék ærinn hugur á að ná í hann þá sparaði hann ekki tilraunir um þetta. Einu sinni þegar prestur var á setunum kom kölski þar og segir:

„Nunc tibi deest gramen.“[1]

Þá segir prestur:

„Digito tu terge foramen.“[2]

Í öðru sinni var það að kölski settist á kirkjuburstina og segir:

„Hæc domus est alta.“[3]

Þá segir prestur:

„Si vis descendere, salta.“[4]

Einu sinni var Sæmundur að drekka úr horni; þá kemur kölski þar að og segir:

„Nunc bibis ex cornu.“[5]

Þá segir prestur:

„Vidisti, qvomodo fór nú?“[6]

Kölski segir að „fór nú“ sé ekki latína og þykist hafa unnið veðið. En Sæmundur kvað það ósatt. Þrættust þeir um það lengi, en svo lauk að Sæmundur sannaði kölska það með lærdómi sínum að „fór nú“ væri latína. „Reynum við þá einu sinni á íslenzku,“ segir kölski. „Það skal vera,“ segir Sæmundur, „og byrja þú.“ Þá segir kölski:

„Allt er runninn út í botn
áttungur með hreina vatn.“

Þá segir prestur:

„Allt er vald hjá einum drottn',
á hans náð ei verður sjatn.“

Hafði þá kölski enn beðið ósigur fyrir Sæmundi og er þess ekki getið að þeir kvæðist á síðan.

  1. Gras þig skortir skemmilega að skilning mínum.
  2. Skein mig fingri þá með þínum.
  3. Þetta hús er hátt, það má ég játa.
  4. Ofan hrapa ef enn vilt þú er þér bezt að stökkva nú.
  5. Af horni í þig hellir þú.
  6. Hvernig sýndist þér fór nú?