Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Illugi og Jón hreppstjóri

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Séra Illugi og Jón hreppstjóri

Sú er enn ein sögn um séra Þorleif Skaftason að þegar hann var orðinn prófastur að Múla hafi verið sá prestur að Sauðanesi er Illugi hét og nefna sumir hann bróður séra Þorleifs.[1] Hann átti sökótt við sóknarmenn sína. Einn tíma féll það upp á hann að hvurt sinn er hann messaði, þegar hann kom upp í stólinn, missti hann málið, en hafði það óskert fyrir og áður. Urðu svo mikil brögð að þessu að fólk var hætt að koma til kirkju. Hélt prestur þetta vera af fjölkynngi. Gjörir hann boð til séra Þorleifs og biður hann að finna sig og hjálpa í þessum vandræðum. Séra Þorleifur brá við og kom að Sauðanesi á föstudagskvöld og var þar á laugardaginn að fárra manna vitund. Gjörir séra Illhugi boð um sveitina að koma til kirkju á sunnudaginn, því það eigi að messa. Veður var gott á sunnudaginn og kom flest fólk úr sveitinni og meðal annarra bóndi er Jón hét og bjó undir Heiði; hann var líka hreppstjóri. Kemur nú séra Illhugi í kirkjuna og svo líka séra Þorleifur; fór hann í stólinn og bar ekki á að hann missti málið. En þegar hann var búinn með ræðuna segir hann: „Þess bið ég guð, sé hér nokkur maður innan kirkju sem gjört hefur séra Illhuga hindrun á máli hans, að á honum sjáist augljós merki fyrir alls safnaðarins augum svo hann verði ólíkur öðrum.“ En er hann hafði þetta mælt brá Jóni hreppstjóra svo við að hann afskræmdist allur í andliti og varð engin mannsmynd á honum. Þá sagði séra Þorleifur: „Nú sýnir það sig sjálft hvur sekur er, og er réttvíst hann taki gjöld fyrir, enda mun honum það minnistætt ef hann heldur þessari mynd til dauða.“ Jón gekk þá að séra Þórleifi og bað hann fyrir guðs skuld að vægja sér fyrir að bera þessa mynd. Prófastur sagði: „Ef þú lofar því undir guðs og manna vitni að sýna ekki séra Illhuga eða neinum öðrum galdramein hér eftir þá er nokkur von að þú kunnir fyrir guðs náð að fá þinn rétta skapnað.“ Jón var fús til þess og bað þá séra Þorleifur til guðs að hann fengi sína fyrri mynd; og það varð, en séra Illhugi hafði mál sitt óhindrað þar eftir. – Endir.


  1. Þorleifur átti engan bróður með þessu nafni og enginn prestur á Sauðanesi hefur Illugi heitið. Árni bróðir Þorleifs var prestur á Sauðanesi 1717-1770.